31.10.08

Bankamaður er jafnari en venjulegur maður

Eitt stærsta spillingarmálið tengt nýju bönkunum í dag er hvernig verið er að bjarga bankastarfsmönnum undan lánaskuldbindingum sínum. Þetta lesendabréf birtist á vef Egils Helgasonar í gær, 30. október:
Frá bankamanni

Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, afhverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!).


Sagan segir að verið sé að stofna eignalaus einkahlutafélög í eigu bankastarfsmannanna sem fá að taka lánin yfir án þess að búa yfir nokkru veði. Þessi einkahlutafélög geta síðan farið í gjaldþrot án þess að hafa áhrif á kennitölu bankastarfsmannsins. Sem þýðir að óreiðumenn geta unnið í bönkum áfram. Þetta er eitthvað sem hinn almenni launamaður á ekki kost á að gera.

Þetta þarf að birtast á sem flestum stöðum. Ótrúlegt að ekkert heyrist af þessu á Alþingi eða í fjölmiðlum.

0 ummæli: