12.10.08

Þarf Geir að óttast sérframboð Davíðs?

Ef nota má bloggið sem hitamæli fyrir hug þjóðarinnar þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki að óttast sérframboð Davíðs Oddssonar. Ekkert frekar en þeir þurftu að óttast F-lista Sverris Hermannssonar. Þvert á móti bæri þeim að fagna því. Slíkt framboð myndi bara beina eirðarlausri reiði hægri-miðju kjósenda á ákveðinn andstæðing og þar með styrkja kjörfylgi X-D. Þetta hlýtur Davíð líka að sjá í hendi sér.

Sjálfstæðisflokkurinn mun réttilega þurfa að þola mikla skoðun og ádeilur vegna framkvæmdar einkavæðingarinnar, hagstjórnarstefnunnar, og tengslum við útrásarvíkingana. Ef Davíð Oddsson, yfireinkavæðari og seðlabankastjóri, væri í öðrum flokki, ásamt líklega Pétri H. Blöndal og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, myndi mest öll reiði kjósenda og ádeilur andstæðinga lenda þar.

Hinsvegar er ég ekki svo viss um að bloggið segi til um hug Sjálfstæðismanna. 200 manns í mótmælum, og þar af nokkrir sósíalistar að syngja nallann. Hljómar ekki beint eins og árgangsmót úr Verzlunarskóla Íslands. Það gæti því verið að Davíð ætti afturkvæmt.

0 ummæli: