21.10.08

Ríkasti krakkinn í bekknum

Ríkasti krakkinn í bekknum var ríkastur því hann fékk mikinn pening frá fjölskyldu sinni. Fjölskyldan er mjög stór og fjölskyldumeðlimir í mörgum heimsálfum.

Krakkinn barst á og montaði sig við bekkjarfélagana. Mætti í teinóttum fötum og með flottasta dót sem aðeins hafði sést í sérstökum lúxusþáttum í sjónvarpi, gerði grín að hinum krökkunum fyrir að vera fátæk, og bauðst til að lána þeim nammi og smáaura af góðvild sinni einni saman.

En á meðan var fjölskyldudrama í gangi. Heimskasti frændinn, olíumaður í Bandaríkjunum, fór á hausinn eftir að hafa lánað öreigum margra milljarða lán til húsnæðiskaupa. Það hrikti í stoðum familíunnar og hún hætti að lána hvoru öðru fé. Fjölskyldan hafði haldið bókhald yfir allan peninginn sem krakkinn fékk, og öllum að óvörum sendi hún litla frænda bréf þar sem tíundaðir voru allir peningarnir sem hann skuldaði, og frestur gefinn í nokkra daga til að borga.

Krakkinn flúði í ofboði til Disneylands í Flórída. Einhverra hluta vegna tóku bekkjarfélagar hans að fá reikninginn. Þeir höfðu jú fengið af og til nammi og svona, hagnast á ríkidæmi krakkans.

Krakkaskíturinn er hinsvegar hafinn upp yfir þetta allt. Og bekkjarfélagar hans kenna kennaranum og skólastjóranum um. Nokkrir vinir krakkans skrifa nefnilega í skólablaðið.

0 ummæli: