31.10.08

Bankamaður er jafnari en venjulegur maður

Eitt stærsta spillingarmálið tengt nýju bönkunum í dag er hvernig verið er að bjarga bankastarfsmönnum undan lánaskuldbindingum sínum. Þetta lesendabréf birtist á vef Egils Helgasonar í gær, 30. október:
Frá bankamanni

Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, afhverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!).


Sagan segir að verið sé að stofna eignalaus einkahlutafélög í eigu bankastarfsmannanna sem fá að taka lánin yfir án þess að búa yfir nokkru veði. Þessi einkahlutafélög geta síðan farið í gjaldþrot án þess að hafa áhrif á kennitölu bankastarfsmannsins. Sem þýðir að óreiðumenn geta unnið í bönkum áfram. Þetta er eitthvað sem hinn almenni launamaður á ekki kost á að gera.

Þetta þarf að birtast á sem flestum stöðum. Ótrúlegt að ekkert heyrist af þessu á Alþingi eða í fjölmiðlum.

30.10.08

Innsæi Ólafs Ragnars

Fyrir 20 árum benti Ólafur Ragnar, nú forseti, á að verðbréfasjóðir Ávöxtun sf. gætu ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Orð hans um þessi málefni urðu til þess að sjóðseigendur innleystu fé í unnvörpum og fyrirtækið fór á hausinn. Þá kom í ljós að hluti sjóðsfé hefði verið notað á óeðlilegan hátt, og skuldaði Ávöxtun sf. sjóðnum 68 milljónir. Stjórnendur Ávöxtunar sf. sátu inni á Kvíabryggju í kjölfarið. Einnig fór fram rannsókn á því hvort eftirlitshlutverk bankaeftirlits Seðlabankans og Viðskiptaráðuneytis hefði brugðist. Bankaeftirlitið bar fyrir sig að „allt í einu“ hefðu frjáls viðskipti með verðbréf hafist og þeir ekki haft ráðrúm til að sinna sínu lögboðna eftirliti.

Málið með Ávöxtun var svipað bankahruninu, bara mun smærra í sniðum. Í tilfelli bankahruns var enginn Ólafur Ragnar á þingi, hann var upptekinn við að sinna kynningarstarfsemi fyrir bankana á erlendri grundu. Var „viðskiptaundrið“ of nákomið Ólafi Ragnari í þetta sinn?

29.10.08

Evra eða neðra

Það virðist ljóst að við komumst ekkert áfram nema í slagtogi við ESB og í myntbandalagi þeirra. Einhverjar ræður um samnorræna mynt er ekkert nema draumur sem ólíklegt er að verði að veruleika.

Ég hef búið við Evru í Frakklandi, og á marga vini sem gera það enn. Með laun í Evrum og lán í Evrum. Þeim buðust lán í Jenum, en sáu ekki ástæðu til að taka þau, þar sem seðlabankinn þeirra var ekki með ~15% stýrivexti eins og staðan var hér. Þessir menn eru ekki með hjartað í brókunum upp á hvern dag, þótt vissulega eigi einhverjir bankar í vandræðum í þeirra landi.

Maður fékk óverðtryggð lán á rúmlega 4% hjá bankanum sínum en kringum 6% hjá öðrum lánastofnunum. Munurinn var líka sá að bankinn vann eftir einhverju regluverki. Þannig þó að ég væri með 3500evrur útborgað á mánuði var bankinn tvístígandi í að ég skuldsetti mig fyrir bíl með afborgunum upp á 600evrur á mánuði. Þeir settust niður með mér og útskýrðu að ég yrði að lifa líka. Þrátt fyrir að ég lifði hvorki við gengis- né verðbólguáhættu.

Þegar ég lenti í greiðsluerfiðleikum út af tímabundnum tekjumissi í einn mánuð, þá sá franski bankinn til þess að ég hefði rétt á milli hnífs og skeiðar á meðan greiddist úr afborgunum, með fyrirframgreiddu greiðslukorti.

Þetta lærði ég því af þeim, að þegar ég lenti í að skulda hellings pening sem ég þurfti að borga einn mánuðinn hér á Íslandi (~120þús), þá kaus ég frekar að borga alla summuna af launareikningnum og taka á mig 1-2 magra mánuði frekar heldur en að taka yfirdrátt á 25% vöxtum eins og íslenski bankinn ráðlagði mér.

28.10.08

Svo bregðast krosstré..

Þar sem ekki er efnt til almennilegra mótmæla lengur, þá neyðist ég til að taka þátt í mótmælum á netinu: www.kjosa.is.

Að fallast hendur

Manni fallast hreinlega hendur í þessu ástandi.

Hér ríkir alger glundroði og upplýsingaskortur ofan á hann. Það er engum að treysta í þessu og enginn stendur upp úr sem trúverðugur leiðtogi sem hefur yfir að búa getu til að koma okkur í gegnum þetta. Eini aðilinn að málinu sem maður getur tekið stöðu með er almenningur.

Ef við reynum að mótmæla, þá þurfum við að sitja uppi með afdala stjórnmálahunda og börn þeirra, eða þá kommúnista og listaspírur sem nota tækifærið og tala um fall kapítalismans og upprisu sósíalismans. Nei takk, ég bý þegar við sósíalisma síðan í byrjun október.

Ég var í sjokki, varð reiður, en nú er ég fullur vonleysi. Því mér sýnist enginn geta aðstoðað almenning eða talað fyrir okkar hönd. Ég er ekki á þeim stað í lífinu þar sem ég er tilbúinn í að taka þátt í ofbeldisfullri byltingu. Það þarf ekki veðurfræðing til að segja manni hvert vindurinn blæs.

Krónan á flot aftur

Nú eru viðskipti hafin aftur með krónuna. Stýrivextir hækkaðir til að fjárfestar sjái sér hag í að taka stöðu með krónunni. En það verður líklega ekki. Hver hefur trú á krónunni eða gjaldeyrisstefnu sem gæti breyst jafn harðan og festing gengisins á dögunum.

Nú bíður maður með krosslagða putta og vonar gegn vitund að krónan fari ekki í frjálst fall aftur.

27.10.08

Lygar

Björgólfur Thor er nú hársbreidd frá því að sanna lygar á Seðlabanka Íslands.

Hvernig hefði annars Seðlabanki Íslands geta réttlætt að lána ekki gjaldeyri sem Landsbankinn ætlaði að nota sem tryggingu við að koma Icesave hraðbyri í breskt dótturfélag. Gegn fimmföldu veði? Hvernig er hægt að neita slíkri umsókn?

Í staðinn þurfum við örugglega að taka þetta á okkur, ef marka má afdráttarlaust loforð Björgvins G Sigurðssonar til Alistair Darling 5. október.

Var kannski bara búið að ákveða að bankarnir yrðu teknir? Búið að finna nýja gullkálfa?

Nú verða erlendir rannsóknaraðilar að fara að drífa sig í landið, þessar spurningar mega ekki hanga yfir okkur lengi.

Samningsstaða

Hvaða samningsstöðu hefur íslenska ríkið við Breta þegar breska fjármálaráðuneytið getur vísað í bréf frá íslenska viðskiptaráðuneytinu þar sem því er afdráttarlaust lofað að innistæðusjóður standi á bakvið Icesave reikningana bresku?

Spennandi verður að sjá hvernig Samfylkingunni tekst að klína þessu bréfi á Davíð Oddsson.

National Bank of Iceland

Jæja, Landsbankamenn hinir nýju hafa séð að það var vonlaust að ætla að eiga viðskipti út á nafn bankans. Hann heitir nú NBI, sem líklega stendur fyrir National Bank of Iceland.

Gamalt og gott nafn frá árinu 1885 eyðilagt á 5-6 árum af glannaskap.

26.10.08

Davíð burt(?)

Eins einfalt og það er nú fyrir fólk að skrá stuðning sinn við eitthvað bænaskjal á netinu, þá hefur áskorunin þess efnis að Davíð Oddsson segi af sér bara hlotið rúmlega 2800 undirskriftir.

Það er langt undir 1% þjóðarinnar. Enda er það nú frekar ódýr lausn. Hvar er ákallið um að Geir Haarde segi af sér, Árni Mathiesen, eða Jón Sigurðsson formaður FME? Nú eða ákallið um að Björgvin G axli ábyrgð á launum bankastjóra sem hann hefur sjálfur hneykslast á?

Einstaklega einfeldningslegt að biðja bara um að Davíð fari á eftirlaun og restin lagist af sjálfri sér. Aðeins lítill hluti hinna 2800 hafði síðan nennu til að mæta fyrir utan ráðherra bústaðinn og tigna Jón Baldvin Hannibalsson, brenna fána og hrópa Davíð burt. Jón Baldvin, það var þá líka boðberi nýrra tíma í pólitík!

25.10.08

Súr mótmæli

Arkaði snjó með kasólétta konuna og drenginn gegnum hríðarbyl í dag áleiðis niður í miðbæ.

Þegar þangað var komið voru um 30 kommar þarna með rauðan fána með 3 fíflum á, og boðuðu byltingu fíflanna.

Ef einhver kemur með tillögu að raunhæfum mótmælum þá skal ég mæta, en ég sit ekki undir því að hlusta á Hlyn Hallsson tala um upprisu sósjalismans í annað sinn. Enda er það bara enn eitt kerfið sem brást, tók ekki fyrir mannlega þáttinn. Rétt eins og kapítalisminn.

24.10.08

Landsbankinn Securities

Þvert á vilja íslenskra stjórnvalda hefur KPMG samið, fyrir hönd breskra stjórnvalda, um kaup Straums Burðaráss á eignum Landsbankinn Securities í Bretlandi. Þannig kaupa gömlu eigendur rjómann af eignasafninu og halda hrunadansi sínum áfram.

Niðurlægingarnar koma í drífum núna.

Mótmæli, bara gegn Davíð?

Ég er vel til í að mótmæla á morgun. Sérstaklega í hríðarbyl og vofveiflegu veðri -- það er bara viðeigandi. En ef mótmælin snúast bara um persónu Davíðs Oddssonar, þá nenni ég ekki að mæta. Vil ekki standa við svo þrönga afstöðu. Finnst það einum of ódýrt að skella skuldinni á hann einan. Hann segist hafa sannanir fyrir því að hafa reynt að fá bankana til að draga úr áhættusækni sinni, með tilmælum, sem þeir hunsuðu. Hann þarf að fá að sanna það.

Björgvin G Sigurðsson sagði á bloggi sínu ekki fyrir allslöngu að einkavæðing bankanna hafi verið vel heppnuð og löngu tímabær, því bloggi hefur hann lokað. En nú segir Samfylkingin að Davíð þurfi að víkja m.a. vegna framkvæmdar einkavæðingarinnar.

Gott dæmi um það er fjármálaþjónustan. Aðeins fimm árum eftir að einkavæðingu íslensku ríkisbankanna lauk hefur útrás og velgengi þessarar fyrirtækja verið með ólíkindum. Bankarnir eru orðnir megin fyrirtækin í okkar samfélagi sem skaffa þúsundum góð og vel launuð störf. Og þjóðarbúinu um 10% tekna sinna. Frábær árangur og dæmi um þá krafta sem leystir voru úr læðingi með löngu tímabærri einkavæðingu. Lesa meira


Lokapunkturinn er síðan Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn sem vill nokkurnveginn sömu peningamálastefnuna áfram.

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Davíðs, en mig svíður það ef fólk ætlar að eyða tíma sínum og orku í að berjast gegn honum að ástæðulausu. Hvað er annars eftir fyrir andstæðinga hans að japla á?
--- --- ---
Uppfært 11:40:
Ágætur Dr. Gunni svaraði tölvupósti mínum varðandi þessi mótmæli, þó hann sé ekki lengur í forsvari fyrir þau.

Yfirskriftin er núna „Krafan er einföld og þverpólitísk, rjúfum þögn ráðamanna!“

Þannig að kallinn mætir, með útþanda ladsa. Sjá hér.

Björgvin Gjé

Það er sjálfsagt hægt að segja margt, en best að bíða eftir niðurstöðu erlendrar rannsóknar um áramótin.

Eitt er þó ótvírætt, maðurinn er gasprari. Það sést á bloggfærslunum sem hann reyndi, klaufskt, að fela. Björgvin punktur is lifir enn í minni netsins.

23.10.08

Kastljósið tekur fram úr

Kastljósið er að taka fram úr öðrum fjölmiðlum í umfjöllum. Viðtalið við Geir Haarde í gær, og umfjöllun um samtal Árna Mathiesen og Alistair darling í kvöld voru fyrsta flokks. Vonandi að þeir nái að fletta ofan af atvikunum áður en við verðum öll skuldsett vegna þeirra. Við getum ekki greitt fyrir glæp annarra, hvað þá án þess að vita staðreyndir glæpsins. Við verðum að vita hvað fór á milli Darling og Björgvins G Sigurðssonar.

Verst að Jóhanna Vilhjálmsdóttir er ekki mjög sterk í viðtölum, eins og viðmælandi kvöldsins, Jón Daníelsson, var áhugaverður. Megnið af viðtalstímanum eyddist upp í moði og samantektum Jóhönnu.

Kastljós, 23. október, 2008

Loksins, loksins

Frétta- og fjölmiðlafólk hefur stóreflst í aðgangshörku sinni og í að skera gegnum spunann og koma að kjarna málsins.

Þetta sést á viðtali Sigmars Guðmundssonar í gær, viðtali Egils Helgasonar við Jón Ásgeir Jóhannesson, og svo núna í viðtali Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur við Birgi Ármannsson formann allsherjarnefndar.

Meira svona, takk.

20þús íslenskar undirskriftir..

Geri athugasemd við þessar 20þús undirskriftir.

Alltof ódýrt að leggja vínarbrauðið frá sér í pásunni, músa sig inn á indefence.is, og pikka inn nafnið sitt með annarri meðan heitur javavökvinn rennur niður úr hinni. Pikka síðan inn einhver önnur nöfn sem maður man eftir, svissa um hendi, bíta í vínarbrauðið og slá inn nokkur bullnöfn líka. Því hver les svona lista, bara að hafa sem flesta!

The revolution will not be televised. Og að sama skapi verða aldrei alvöru mótmæli á netinu.
--
Uppfært 16:27:
Nú eru komnar 34.760 undirskriftir. Hver trúir þessu rugli? Ég myndi vilja fá tölur þeirra sem halda síðunni úti hversu margir vafrar margar einkvæmar heimsóknir þessi vefur hefur fengið. Sé að þeir eru að nota Google Analytics.

Krúttin

Ég held að krúttin muni umbreytast í Æþegiðikynslóðina.

Mjög þjökuð af neikvæðni eldri stétta (síbyljukynslóðarinnar), mun æþegiðikynslóðin klippa á svarta vírinn, en halda þeim rauða. (Halda jákvæða pólnum.)

Ef eldra fólk, sem ætti að þekkja söguna betur en krúttin, væri ekki að missa sig í bölsýni, þá myndi fólk kannski sjá glóð í myrkrinu. Að fólk hefur nú komist í gegnum verra mótlæti en þetta.

22.10.08

Nýtt lyf gegn vonleysi og reiði

Kastljós, 22. október, 2008

Rólegheitamúsík

Rúmt ár síðan ég smellti þessum performans Gabors Szabo á netið. Algjör perla.



Meint heimska krúttkynslóðarinnar

Þeir eru einhverjir sem vilja dangla aðeins í kynslóð krúttanna nú á þessum síðustu og verstu tímum.  Hreyta í þau vegna efnahagshrunsins, og spyrja hvernig þau haldi að hægt sé að stunda einhverja skýjaborga hátækni nú þegar allt er að fara til fjandans. Og slá Andra Snæ Magnason utanundir fyrir vitleysuna að baki Draumalandsins. Stóriðja áfram, ekkert stopp!

Það er þó vert að minnast á það, að í hinum miklu efnahagsþrengingum sem Bandaríkin gengu í gegnum á 8. áratug síðustu aldar, þá voru einhver þálifandi krútt sem töldu að tölvum væri ekki bara ætlað að verða hraðreiknar fyrir stórar stofnanir. Fólk myndi koma til með að vilja einkatölvur á hvert heimili.

Þetta voru meðal annars Microsoft og Apple Inc. Microsoft halar inn óhugsanlegum tekjum inn í bandaríska hagkerfið og stofnendur þess eru ríkustu menn vesturlanda.

Eitt rótgróið stórfyrirtæki, Xerox, átti á þessum tíma hugvitsfólk sem fann upp gluggaumhverfi ákynja því sem við notum í dag, ásamt músinni. Stjórnendum fyrirtækisins fannst þetta svo arfavitlaus hugmynd að þeir seldu Microsoft og Apple Inc. aðgang að þessum uppfinningum og verkfræðingum þeirra. Og það á brunaútsölu.

Nýsköpunarhugmynd

Ég er með arðbæra hugmynd. Hún gengur út á að frysta fósturvísa þeirra sem vilja tryggja sér niðjar, en hafa ekki áhuga á að láta börnin sín borga fyrir óreiðumenn fortíðarinnar.

Þjónustan byggir á að leigumæður muni ala fósturvísana þegar ríkissjóður er aftur orðinn skuldlaus og séð verði fyrir þeim á allan hátt.

Verð: 1 milljarður króna per fósturvísi, 20% systkinaafsláttur.

Gerum bankana vinalegri

Hér er hugmynd. Afhverju ekki að skipta bara alveg um nöfn? Nöfn bankanna eru hvort eð er ónýt. Nefnd í sömu andrá og Al Qaida. Það er slæm vörumerkistenging.

Afhverju ekki bara að kalla Glitni „Birnubanka“, Landsbankann „Elínarbanka“, og Kaupþing „Finnsbanka“? Miklu vinalegra!

Þegar þetta er svo búið, þá getum við notað nafnið Thüle. Það er enginn smeykur við að eiga viðskipti við Thüle.

Nema Filip Grín vilji kaupa okkur á 95% afslætti. Grínland?

21.10.08

Kapítalisminn lifir!

Hannes Hólmsteinn, vitnar í hugmyndafræði Locke frá 17. öld, gjörsamlega úr öllum tengslum við raunveruleikann.

Segir að kapítalisminn hafi ekki og muni ekki deyja. Hrunið sé ekki kapítalismanum að kenna, heldur kapítalistum.

Þetta er svona eins og ef verkfræðingarnir á bakvið Titanic hefðu staðið á dekkinu á Carpathia 15. apríl 1912 og reynt að sannfæra fólkið sem bjargaðist um að hönnun Titanic kæmi í veg fyrir að hún gæti sokkið, skipstjórinn hefði bara verið fáviti.

Hann virðist ekki gera sér grein fyrir að allt þetta sama mátti segja, og var sagt, um kommúnismann.

Ríkasti krakkinn í bekknum

Ríkasti krakkinn í bekknum var ríkastur því hann fékk mikinn pening frá fjölskyldu sinni. Fjölskyldan er mjög stór og fjölskyldumeðlimir í mörgum heimsálfum.

Krakkinn barst á og montaði sig við bekkjarfélagana. Mætti í teinóttum fötum og með flottasta dót sem aðeins hafði sést í sérstökum lúxusþáttum í sjónvarpi, gerði grín að hinum krökkunum fyrir að vera fátæk, og bauðst til að lána þeim nammi og smáaura af góðvild sinni einni saman.

En á meðan var fjölskyldudrama í gangi. Heimskasti frændinn, olíumaður í Bandaríkjunum, fór á hausinn eftir að hafa lánað öreigum margra milljarða lán til húsnæðiskaupa. Það hrikti í stoðum familíunnar og hún hætti að lána hvoru öðru fé. Fjölskyldan hafði haldið bókhald yfir allan peninginn sem krakkinn fékk, og öllum að óvörum sendi hún litla frænda bréf þar sem tíundaðir voru allir peningarnir sem hann skuldaði, og frestur gefinn í nokkra daga til að borga.

Krakkinn flúði í ofboði til Disneylands í Flórída. Einhverra hluta vegna tóku bekkjarfélagar hans að fá reikninginn. Þeir höfðu jú fengið af og til nammi og svona, hagnast á ríkidæmi krakkans.

Krakkaskíturinn er hinsvegar hafinn upp yfir þetta allt. Og bekkjarfélagar hans kenna kennaranum og skólastjóranum um. Nokkrir vinir krakkans skrifa nefnilega í skólablaðið.

Engin upplýsingaskylda?

Enn ekkert að frétta af aðgerðum eða áætlunum ríkisstjórnarinnar.

Væri þetta hlutafélag, myndi ég sem hluthafi eiga kröfu á betri upplýsingum, og þeim upplýsingum yrði að koma til Kauphallarinnar o.s.frv.

En sem stendur vita bara nokkrir gæðingar hvað er að fara að ske hérna.

Meðan þreyta ráðamenn spretthlaup og sýna fádæma hroka í samskiptum við fjölmiðla. Hvað er nákvæmlega svona viðkvæmt við þeirra málefni, og hversvegna er ekki hægt að tala hreint út?

19.10.08

Kraftarnir sem losna

Kraftarnir sem losna við hrun útrásarinnar verða ekki virkjaðir á Íslandi. Allavega væri ég farinn ef ég ætti þess kost.

Var að spökulera hvort ég gæti farið til Frakklands og nýtt það sem ég á inni í ASSEDIC. En gjaldeyrisskömmtun og lágt gengi þýða að ég gæti mest lifað af í 2 vikur.

Svo er nýr Íslendingur, Henrýsson, væntanlegur í desember.

Hvernig segir maður „oxymoron“ á íslensku?

Í kvöldfréttatímanum sagði Geir H Haarde í sömu andrá að einskis væri að frétta, en tími ríkisstjórnarinnar væri vel nýttur.

Það er fundað í hringi.

18.10.08

Nýtt sovét, takk.

Þegar illa árar virðist öllum sama um litla Ísland, og jafnvel berja það aðeins til svona til að láta sér líða betur.

Virðist vera að við eigum ekkert sem öðrum vantar lengur. Eina sem gæti bjargað okkur er stríð milli Bandaríkjanna og Rússlands. Nýtt kalt stríð og Ísland úr NATÓ, þá gætum við haft einhverja samningsstöðu við báða aðila.

16.10.08

Frasinn

Þessi frasi, „vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði“, er svo mikið notaður að stjórnvöld hafa fundið hjá sér nauðsyn til að setja hann á lógó:

Nú fyrst reynir á geðheilsuna

Ágætur pistill á heimasíðu jafnréttisstofu.

En er fólk að fara að höndla samviskubit yfir sínum fáu hlátrum þessa dagana?

Netið blómstrar í kreppunni

Baggalútur og ýmsir bloggar eru að blómstra.

Virðist enginn nenna að lesa dagblöð lengur, enda lítið upp úr þeim að hafa annað en varnir fyrir eigendurna. Auk þess finnst manni ekki líklegt að þau lifi þetta af.

Sjónvarpsfréttirnar virðast alltíeinu orðnar of stuttar til að ná að fara yfir allt sem gerist á heilum degi, í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér. Enda rétt tiplað á smáatriðunum að utan og í íþróttunum.

Spaugstofan er orðin relevant eftir u.þ.b. 8 mögur ár.

Kominn tími á Interpol?

Björn Bjarnason hefur falið ríkissaksóknara að rannsaka bankana.

Gott og vel, en mér þætti hinsvegar mun betra ef Interpol rannsakaði þetta. Ég treysti ekki Íslendingum til að rannsaka Íslendinga núorðið.

13.10.08

Hverjir töpuðu sparifénu á þjóðnýtingunni?

Skoðum upphaf verðtryggingar á Íslandi.

Ég var í stærðfræðitíma í byrjun framhaldsskóla þegar kennarinn fór að segja okkur frá því hvernig hann eignaðist húsið sitt. Frásögnin sat í mér.

Fólk fætt á millistríðsárum keypti húsin sín á stórum lánum. Allir þurftu að eignast hús. Mikil þensla varð, og henni fylgdi óðaverðbólga. Í kjölfarið varð launaskrið og verðgildi lánanna varð lágt gagnvart krónunni. Í stuttu máli brunni lánin upp. Þá átti fólkið tekjuafgang mánaðarlega sem það ráðstafaði í önnur lán fyrir bílum og þessháttar. Leikurinn endurtók sig: Þensla, verðbólga, launaskrið, verðlaus lán.

Þetta er fólkið sem var með löngu uppkomin börn þegar húsnæðismarkaðurinn tók kipp fyrir nokkrum árum. Þau sáu verðgildi einbýlishúsanna sinna taka risastökk mánaða á milli, og notuðu tækifærið og minnkuðu við sig. Sumir skiptu þeim upp í tvíbýli til að hagnast enn meira. Keypti litlar krúttlegar íbúðir fyrir ellina. Eftirstöðvarnar voru tugir milljóna sem fólkið setti síðan í bréf og ýmsa sjóði. Venjulegir bankavexti freistuðu ekki.

Stór hluti fólksins sem tapaði háum fjármunum í þjóðnýtingu bankanna og falli markaða er þetta fólk. Af kynslóðinni sem kaninn kallar „þöglu kynslóðina“. Hér á Íslandi hefur hún verið þekkt sem frekjukynslóðin.

Sama fólkið og segir að við í „krúttkynslóðinni“ kunnum ekki með peninga að fara og gerum óraunhæfar kröfur. Ég á erfitt með að vorkenna því þó það sé nú orðið að virðulegum gamalmennum. Það á þó ennþá íbúðirnar sínar. Nema þau sem fóru í Búseta.

Við í krúttkynslóðinni fengum ekki tækifæri til að spila á sama leikvelli. Okkar fjárhagslega framtíð verður miklu dýrari.

Nú er lag

Fjármálalífið verður að fara á allsherjar skilorð núna. Hér hafa þróast einhverjar Abu Ghraib aðstæður í viðskiptalífinu, þar sem skipuritið brást og menn höfðu of lausan tauminn.

Ríkisstjórnin verður að hætta að reka bankana eins og eign flokkanna. Ráða verður business management ráðgjafafyrirtæki sem sér um að endurskipuleggja reksturinn, kenna undirfólki góða viðskiptahætti. Minnka áhættur og gera þessa banka að hagkvæmustu og best reknu fyrirtækjum heims.

Fyrsta skrefið gæti orðið að láta endurskipuleggja FME, sem myndi síðan skipuleggja rekstur bankanna. Endurskoðendafyrirtæki myndu síðan taka þátt í útboði til að gera stikkprufur á rekstri og bókhaldi bankanna.

Með þessu fengjum við sem mestan arð af sölu bankanna. Og smám saman gætum við endurheimt orðspor Íslands. Stjórnvöldum er ekki stætt á fornum bitlingum, því nú eru augu heimsins á þeim. Ekki bara íslenskra kjósenda (guði sé lof.)

DV hefur fengið línuna

Allir helstu auðmenn landsins hafa talsmenn.

DV þetta stóryrtasta blað landsins sem marga æruna hefur svert og fáu sinni beðist afsökunar þykir Egill Helgason hafa misst niður um sig með því að krefja Jón Ásgeir svara í þætti sínum.

DV maskínan fór umsvifalaust í gang:

Egill hundskammaður fyrir Silfrið

Drottningar hrósa Agli

Reiður og ómálefnalegur

Það er dónaskapur að ráðast með stóryrðum á auðmenn, segir stóryrtasta blað landsins.

Aflandseyjar

Margir velta fyrir sér hvað aflandseyjar séu.

Þetta hugtak er notað yfir banka sem reknir eru í ríkjum þar sem skattbyrði er minni, viðskiptavinir eru varðir með bankaleynd, og lög eru rýmri.

Upphaflega var hugtakið notað fyrir eyjar Ermasundsins sem stunduðu svona viðskipti. En ekki eru allar aflandseyjar eylönd. Sum ríki meginlandsins, t.a.m. Sviss, Lúxemburg, og Andorra, falla undir skilgreiningu á aflandseyju.

Sjá útskýringu á wikipedia.

12.10.08

Einsettur bloggari grunaður um lýðskrum

Lýðskrum má þekkja á viðbrögðum manna við fréttum hvers tíma.

Þeir eru á móti og reyna að vekja upp reiði gegn ákveðnu fólki eftir því hvar þeim sýnist almenningsálitið liggja. Með öllum mögulegum leiðum:


Mestu skiptir að setja sig upp á móti sem mestu. Jafnvel þótt hlutirnir þróist og aðlagist eigin hugmyndum. Alltaf er ekkert rétt gert.

Þarf Geir að óttast sérframboð Davíðs?

Ef nota má bloggið sem hitamæli fyrir hug þjóðarinnar þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki að óttast sérframboð Davíðs Oddssonar. Ekkert frekar en þeir þurftu að óttast F-lista Sverris Hermannssonar. Þvert á móti bæri þeim að fagna því. Slíkt framboð myndi bara beina eirðarlausri reiði hægri-miðju kjósenda á ákveðinn andstæðing og þar með styrkja kjörfylgi X-D. Þetta hlýtur Davíð líka að sjá í hendi sér.

Sjálfstæðisflokkurinn mun réttilega þurfa að þola mikla skoðun og ádeilur vegna framkvæmdar einkavæðingarinnar, hagstjórnarstefnunnar, og tengslum við útrásarvíkingana. Ef Davíð Oddsson, yfireinkavæðari og seðlabankastjóri, væri í öðrum flokki, ásamt líklega Pétri H. Blöndal og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, myndi mest öll reiði kjósenda og ádeilur andstæðinga lenda þar.

Hinsvegar er ég ekki svo viss um að bloggið segi til um hug Sjálfstæðismanna. 200 manns í mótmælum, og þar af nokkrir sósíalistar að syngja nallann. Hljómar ekki beint eins og árgangsmót úr Verzlunarskóla Íslands. Það gæti því verið að Davíð ætti afturkvæmt.

11.10.08

Skilaboð frá 2007: Þið þurfið bara sjálfstraust og bjartsýni

Þetta var aðal viðskiptafréttin fyrir einu ári síðan, 11. október 2007.

S.O.S. 1995, Leonard Cohen, The Book of Longing (2006)

Take a long time with your anger,
sleepyhead.
Don't waste it in riots.
Don't tangle it with ideas.
The Devil won't let me speak,
will only let me hint
that you are a slave,
your misery is a deliberate policy
of those in whose thrall you suffer,
and who are sustained
by your misfortune.
The atrocities over there,
the interior paralysis over here -
Pleased with the better deal?
You are clamped down.
You are being bred for pain.
The Devil ties my tongue.
I'm speaking to you,
'friend of my scribbled life.'
You have been  conquered by those
who knew how to conquer invisibly.
The curtains move so beautifully,
lace curtains of some
sweet old intrigue:
the Devil tempting me
to turn away from alarming you.

Hey í harðindum

Er það ég eða er Spaugstofan alltíeinu orðin fyndin þetta árið, eftir að hafa varla getað fyllt upp í hálftíma af gríni síðustu ár?

Mikið er ég feginn að leigja frekar en eiga

Kemur mér sjálfum á óvart því hvernig getur verið gott að borga tugi þúsunda og eignast ekkert í staðinn. Jú, þegar upp er staðið er það vel sloppið því afborganirnar hækka ekki, og ég hefði hvort eð er ekki eignast neitt. Því ekki var bílalánið mitt stórt, en eftirstöðvarnar eru löngu orðnar hærri en nafnverð.

Get engum um kennt nema mér sjálfum. Því uþb. mánuði eftir að ég tók lánið heyrði ég viðtal við hagfræðing. Hann varaði við lánum í þessari körfu (¥ og CHF), krónan væri of hátt verðlögð.

Ég gugnaði á að skuldbreyta þar sem gjaldið var 15.000 kr og óverðtryggt lán í krónum á ca. 20% vöxtum. Nú er ég með lán sem var upphaflega 600.000kr, afborgun það sem af er 230.000, en eftirstöðvarnar 700.000kr. Mánaðarleg afborgun rúmlega tvöfaldast.

Þegar ég fer að sofa á kvöldin heyri ég nágrannana rífast um afborganir af íbúðarlánum og lánum á þessum 4 bílum sem þau eiga og sitja hér fyrir utan.

Ég er ekki bara þakklátur fyrir allt sem ég á; ég er líka þakklátur fyrir allt sem ég á ekki. Við erum eina fólkið í blokkinni sem á bara einn einkabíl!

10.10.08

Fortíðarsmellur

Datt á Singing Bee á Skjá Einum.

Þar öttu kappi Morgunblaðið og 24 stundir.

Fyrsta lagið sem ég heyrði var Vegir Liggja Til Allra Átta, einkennislag Baugur Group.

Brown og Arafat

Egill er á svipuðu róli og Jónas Kristjánsson, yljar sér við eldana, og hamast í geðshræringu. Þeir væru báðir tilbúnir í að fórna ríkinu í skiptum fyrir orðspor okkar gagnvart Bretum. Það er gunguháttur. Svona milliríkjadeilur hafa sinn farveg, sem enginn hefur sýnt fram á að íslenskir ráðamenn hafi brugðið út af.

Brown sjálfur hegðar sér eins og Arafat, talar í stríðstóni við eigin fólk en friðarnótum við okkar ráðamenn. Skilur greinilega ekki að við skiljum oft ensku betur en eigin tungumál, sérstaklega úr vörum stjórnmálamanna.

Hvað hefði verið sagt ef Bretar hefðu fryst eignir allra Sádi-Arabískra kaupsýslumanna í kjölfar 11. sept 2001?

Bloggið logar

Bloggið logar í heimtingu á rannsóknum. Sannindi, hálfsannindi, lygar, og nornaveiðar allt í bland.

Auðvitað þarf að rannsaka þetta. Það þurfa óháðir aðilar að gera, og það verður gert af háskólum og öðrum stofnunum, hérlendis sem erlendis, burtséð frá vilja stjórnvalda til sjálfsskoðunar.

Það sem er boðað á blogginu núna eru ekki góðir rannsóknarhættir, og fáum orðum fylgja þar ábyrgð.

Orðræða margra líkist frekar byltingartilraun, en áköllun á rannsókn. Sem er í besta falli grátbroslegt, því hverskonar byltingu er stjórnað af fólki í skrifborðsstólum?

Jónas og „George Brown"


Í tveimur nýlegum færslum vísar ritstjórinn fyrrverandi, Jónas Kristjánsson, í ummæli George Brown forsætisráherra Bretlands.

Ritstjórinn virðist í mikilli geðshræringu sem fylgir því að sjá höggstað á Sjálfstæðisflokknum.

George Brown barón var innanríkis- og efnahagsráðherra Bretlands á árunum 1964-1966. Tími hans í pólitík var styttur af pressu stjórnmálanna, sem jók mjög á áfengisþorsta hans.

Kannski finnur Jónas hliðstæður í sjálfum sér í Brown barón?

Tvífarar

9.10.08

„Skipta um allt settið"

Steingrím J langar inn á af bekknum og hrópar „nú ég, nú ég!"

En hvaða hugmyndir hefur hann komið með í baráttunni fyrir hagkerfinu. „Skipta um allt settið" er ekki praktísk hugmyndafræði, ef það virkar ekki á þá að skipta aftur um allt settið?

Steingrímur gat ekki tekið afstöðu til neyðarlaganna -- hann sat hjá. Sagan mun dæma hann af því. Sorglegt að mörgu leiti. Hann hafði forskot á hina með því að hafa bent á hættuna, en glataði því með pólitískum afleik. Við kjósum ekki fulltrúa til að sitja hjá.

Hvernig væri hægt að reka ríkisstjórn út á hlutleysispólitík?

Hver hefur rétt fyrir sér, útvarpið eða bloggið?

Það er mikill munur á málflutningi álitsgjafa í útvarpi og bloggi. Jafnvel reyndir fjölmiðlamenn detta í það dý að reka second-guess áróður gegn stjórnvöldum. Án þess að benda á lausnir. Nema ESB.

Þeir sem Rás 2 og Bylgjan talar við virðast á því máli að bresk stjórnvöld bregðist við íslensku krísunni með harkalegum hætti til að slá pólitískar keilur fyrir Gordon Brown og Verkamannaflokkinn. Ísland er ekki eina landið sem einblínir á afkomu sinna eigin þegna fyrst og fremst. Það gera öll lönd.

Ég er hlynntur ESB aðild. Ég hef búið í ESB ríki og notast við Evru,  og kunni því vel. En það þarf að koma hagkerfinu í gang, og opna á erlend viðskipti aftur áður en við göngum til viðræðna við ESB. Er líklegt að evrópski seðlabankinn sé æstur í að innlima okkar hagkerfi í dag?

Bankakrísan og björgun Svía  í byrjun 10. áratugar var um margt lík íslenskum veruleika í dag. Sagan hefur dæmt þá aðgerð góða að því er ég best veit.

En það má vel deila á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki séð þetta fyrir.

Fallít ritstjóri

Sést alltaf hverjir lepja allt upp eftir Jónasi Kristjánssyni. Þeim þykir orðið „fallít" svaka flott.

Gerði Davíð Oddsson ekki nokkurnveginn þá sömu hluti og Jónas gerði að kröfu sinni eftir að ríkið bauðst til að kaupa 75% í Glitni? Talaði um að kasta ekki góðu fé eftir vondu.

Ég þekki menn sem hafa lent illa úti í samskiptum sínum við Davíð Oddsson, verið reknir úr stofnunum ríkisins. Útskúfaðir og úthrópaðir.

Allajafna þætti mér ekki óþægilegt að sjá hann í skotlínunni. En svona moðreykur fer óstjórnlega í taugarnar á mér.

Er Davíð vandamálið?

Nú berjast menn á hæl og hnakka við að bjarga stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með því að setja Davíð Oddsson af í Seðlabankanum.

En er hann vandamálið? Hann starfar í umboði þessarar ríkisstjórnar.

Menn tala um að viðtal við hann hafi orsakað ofsafengin viðbrögð Breta. En ætla menn að gefa sér að ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar fái þýðingu fjölmiðlamanna sinna á orðum Davíðs á borð til sín, og treysti þeirra íslenskukunnáttu án þess að hringja í kollega sína á Íslandi?

Á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru uppteknir af að stunda leyndó framyfir að frumvarp um neyðarlögin voru kynnt, reis Davíð upp og fræddi fólk á mannamáli um það hvað væri að gerast. Burtséð frá mínum skoðunum á Davíð og ferli hans, þá virði ég þetta við hann.

Samfélagsþjónusta

Hér fyrir nokkru sáum við hluta af máli þar sem einstaklingar gátu ekki sótt sinn rétt gegn fjárglæframanni og notuðust við meintan handrukkara.

Fáir vilja sætta sig við svona siðferði, þar sem hendur skipta.

En mikil ósköp held ég að margir sparifjáreigendur væru til í að breyta væntanlegum refsidómi Bensa Ólsara yfir í samfélagsþjónustu, og gera hann út á nokkra fjárglæframenn.

Það væri Kompásþáttur í lagi.