15.11.08

Litla hrunið

Við skutuhjú syrgðum kæra vini í gærkvöld, og fengum um leið nýja innsýn inn í heim margra eftir bankahrun.

Í Nintendo DS vél höfðu búið alter-ego okkar hjúa í leik sem heitir Animal Crossing. Í leiknum stjórnar spilandinn dýri sem af einhverjum orsökum velur að ganga á tveimur fótum. Tilgangur leiksins er að búa dýrinu fallegt heimili og rækta vinskap við nábúendur. Þegar leikurinn byrjar á maður ekki bót fyrir boruna á sér og þarf að taka veðlán fyrir húsi. Síðan þegar maður hefur borgað lánið niður fær maður nýtt, og koll af kolli þar til maður hefur eignast gríðar fallegt heimili. Dýrið þénar pening með því að veiða og selja fisk, safna ávöxtum, blómum, o.fl.

Alter-egoið mitt, nano, var kominn með hús á einni hæð auk svefnlofts með fallegum húsmunum og átti góða vini í þorpinu. Alter-ego konunnar, jellybelly, var komið heldur lengra, komin með 3ja hæða hús auk svefnlofts, mikið af húsmunum og átti mjög marga góða vini sem hún skrifaðist á við. Enda hefur konan haft nokkuð mikinn tíma til að spila í sjúkraleyfi frá vinnu vegna óléttunnar.

Svo gerðist hið óhugsandi undir náttmál í gærkvöld. Leikurinn fraus, og þegar konan endurræsti leikinn voru seivin okkar beggja horfin. Bæði húsin og allir peningarnir horfnir. Og þá er bara einn kostur í stöðunni, að byrja að spila upp á nýtt. En ég viðurkenni að manni hrýs hugur við að byrja upp á nýtt með tvær hendur tómar.

0 ummæli: