17.11.08

Bara lygar

Nú hefur það verið gert sem lofað var að yrði ekki. Ríkið mun greiða skuldir óreiðumanna. Það sem okkur var sagt að við gætum ekki gert og lifðum ekki af, verður nú látið yfir okkur ganga. Það er á svona stundum sem lýðræðið á hvað mest undir högg að sækja.

Í lýðræðisríki myndi sá embættismaður sem gaf þjóð sinni loforð á ögurstundu verða látinn sæta ábyrgð og taka pokann sinn þegar í ljós kemur að loforðið var innistæðulaust. Í lýðræðisríki myndi sá ráðherra sem lofaði þjóð sinni að hún yrði ekki kúguð þurfa að taka pokann sinn þegar hann skrifaði undir og kyssti á vönd kvalara þjóðarinnar. Án þess að kjörnir fulltrúar okkar fengju að koma þar neitt að málum. Við sem ekki kusu stjórnarflokkanna þurfum að greiða þetta líka. Þessi samningur hefði átt að vera uppi á borðinu.

Þessi ríkisstjórn er rúin trausti, og firrir sig ábyrgð. Gjáin milli þings og þjóðar er orðin svo stór að hægt er að tala um tvær aðskildar heimsálfur. Það verður að kjósa strax.

Hvernig hefðu Bretar tekið því ef Winston Churchill hefði samið við Hitler um uppgjöf í miðju Leifturstríðinu? Og gekk það stríð nú mun meira á þrek og vilja bresku þjóðarinnar en þessi kreppa hefur gengið á okkur. Okkur var bara ekki boðið upp á neina hughreystingu eða forystu, bara lygar.

Ég vona að skrípóið létti fólki tímann og losi einhverja hnúta. Skrípóið birtist alltaf á miðnætti.

0 ummæli: