22.1.09

Appelsínugulur

Hrikalegt að draga liti inn í málið, þar sem ég er litblindur. En þessi síða hefur, að sögn litfróðra, lengi verið appelsínugul. Og efni hennar nokkuð friðsamt. Ég birti því með glöðu geði þessa yfirlýsingu:

Von um stóraukna þátttöku almennings í skipulögðum mótmælum, friðsamlegri mótmæli og sýnilegri árangur varð í gær til þess að ört stækkandi hópur fólks, appelsinugulur.is, hvetur nú alla friðsama mótmælendur til að merkja sig með appelsínugulum lit og sýna þannig skýrt að þeir taki þátt í friðsömum mótmælum, án ofbeldis, án öfga.

Vonast er til að þeir sem hingað til hafa veigrað sér við þátttöku, fyrir einhverra hluta sakir, sjái sér nú fært að fjölmenna og sýna samstöðu með málstaðnum án þess að sýna samstöðu með þeim fámenna hópi fólks sem hingað til hefur sett svartan blett á mótmæli almennings í landinu.

Nú er tímabært að draga fram alla appelsínugula hluti og skarta þeim sem skýrt merki um friðsama kröfu til breytinga og skýrt merki til þeirra sem enn hafa ekki tekið þátt að nú geti þeir gert það óhikað og án efasemda um að þátttaka þeirra í mótmælaaðgerðum verði túlkuð á annan veg en þeir hafa í hyggju.

Gefum ekki afturhalds- og deifingaröflum í landinu færi á að gera lítíð úr réttmætum mótmlælaaðgerðum eða þátttöku almennings í þeim - berum skýrt merki um að okkur beri að taka alvarlega - appelsínugult merki sem útilokar jafnvel forhertustu fortölumenn breytinga frá því að kalla þátttakendur skríl.

Appelsínugulur stendur ekki fyrir einstökum mótmælum en eru einföld leið fyrir friðsaman almenning til að taka þátt í þeim með skýrum formerkjum. Frekari upplýsingar er að finna á vefnum http://www.appelsinugulur.is og á samfélagsvefnum FaceBook á slóðinni http://www.facebook.com/group.php?gid=64832322664&ref=mf

Sjá nánar hér.

0 ummæli: